Vegakerfi Íslands telur nú um 26.000 km og þar af eru um 8.000 km með bundnu slitlagi.
Vegakerfi landsins er skipt í (námundaðar tölur):
Þjóðvegi á forræði Vegagerðar – 12.900 km:
- Bundið slitlag: 5.600 km.
- Malarvegir: 7.300 km.
- Fjöldi einbreiðra brúa og lengd: 715, 18 km.
- Fjöldi tvíbreiðra brúa og lengd: 470, 13 km.
- Fjöldi jarðganga og lengd: 12, 59 km.
Vegi á forræði sveitarfélaga og einkaaðila – 12.800 km:
- Bundið slitlag: 2.300 km.
- Malarvegir: 10.500 km.
- Þjóðvegir
Endurstofnvirði: 770 milljarðar króna.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 70 milljarðar króna. - Sveitarfélagavegir
Endurstofnvirði: 100–150 milljarðar króna.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 40–60 milljarðar króna.
- 2 ÁSTAND
- Gult FRAMTÍÐARHORFUR
ÁSTAND
2 ÞJÓÐVEGIR
Stórir hlutar þjóðvegakerfisins uppfylla ekki lágmarksviðmið sem lúta að hrörnun slitlags, hjólfaradýpt, sprungumyndun og holumyndun (burðarþolsskemmdum), kantskemmdum, o.fl. þáttum. Ef fer fram sem horfir verður erfitt að uppfylla ítrustu gæðakröfur til framtíðar m.t.t. öryggis, aðgengis og umferðarflæðis.
Bundið slitlag. Um 95% allrar umferðar á þjóðvegum er á bundnu slitlagi. Áætlað er að um 1/3 af heildarflatarmáli bundinna slitlaga á þjóðvegum á Íslandi uppfylli ekki viðhaldskröfur og að uppsafnaður vandi vegna endurnýjunar á bundnum slitlögum sé um 10 ferkílómetrar af klæðningu og 1,2 ferkílómetrar af malbiki.
Styrkingar og endurbætur. Efstu lög vega verða fyrir mestri áraun frá umferð og er eðlilegur endingartími burðarlaga 20–25 ár. Þörf er á að endurnýja burðarlög á stórum hluta vegakerfisins ásamt því að breikka elstu vegi og lagfæra umhverfi og öryggisbúnað. Uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun burðarlags vega hefur verið um 1.760 km eða um 1/3 af lengd bundinna slitlaga í þjóðvegakerfinu.
Brýr og varnargarðar. Vegagerðin hefur umsjón með um 1.200 brúm og er meðalaldur þeirra 39 ár en þar af er meðalaldur einbreiðra brúa 50 ár. Þá er fjórðungur einbreiðra brúa eldri en 60 ára, hátt á annað hundrað brúa. Margar einbreiðar brýr uppfylla ekki reglur nútímans hvað varðar burðarþol og umferðaröryggi. Þá hafa hlýnun jarðar og veðrabrigði stuðlað að auknu rofi við brýr og tilfærslu efnis þ.a. árfarvegir hafa dýpkað verulega á mörgum stöðum. Mjög lítil endurnýjun hefur verið á brúm undanfarin ár og mörg stór verkefni bíða úrlausnar sem tengjast rofvörnum við eldri brýr, viðhaldi varnargarða og endurbótum á undirstöðum.
2 SVEITARFÉLAGAVEGIR
Ástand vegamannvirkja á forræði sveitarfélaga hefur ekki verið metið með kerfisbundnum hætti síðustu ár né farið fram ítarleg og samkvæm greining á ástandinu. Upplýsingar um ástand sveitarfélagavega eru því af skornum skammti en þó fengust upplýsingar á vinnslustigi frá stærri sveitarfélögum. Þegar ályktanir eru dregnar um ástand sveitarfélagavega á landinu öllu er gengið út frá þeirri forsendu að líklegt sé að ástandið í öðrum sveitarfélögum sé litlu betra. Gert er ráð fyrir að ástand vega í þessum sveitarfélögum endurspegli ástand sveitarfélagavega á landinu öllu er ástandi sveitarfélagavega er gefin einkunn. Ekki er unnt að geta nákvæmra heimilda úr gögnunum þar sem ástandsmat sveitarfélaganna er enn á vinnslustigi. Ljóst er þó að stór hluti kerfisins er kominn á líftíma og ástandið jafnvel ívíð verra en á þjóðvegum. Mikil þörf hefur myndast fyrir endurnýjun gatna, styrkingar og endurbætur í kerfinu.
Endurstofnvirði og viðhaldsþörf þjóðvega. Vegagerðin hefur lagt þó nokkra vinnu í eignfærslu vegakerfisins og er hér getið heimilda úr þeim gögnum en Vaðlaheiðargöngum og Norðfjarðargöngum bætt við lista jarðganga. Endurstofnvirðið inniheldur efniskostnað, verktakakostnað, undirbúnings-, hönnunar- og umsjónarkostnað. Endurstofnvirði þjóðvega er alls metið um 770 milljarðar króna, þar af 590 milljarðar króna í vegi, 90 milljarðar króna í brýr og um 90 milljarðar króna í jarðgöng.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf á þjóðvegum við að koma kerfinu upp í ástandsflokk 4 er metin meiri en 70 milljarðar króna, þar af yfir 50 milljarðar króna í styrkingar og endurbætur, um 11 milljarðar króna í viðhald bundins slitlags og líklega meiri en 10 milljarðar króna í viðhald brúarmannvirkja en árleg fjárheimild undanfarin ár til viðhalds brúa hefur verið um milljarði undir viðmiðunarmörkum. Ekki hefur þó farið fram nákvæm úttekt á uppsafnaðri þörf til viðhalds brúa.
Endurstofnvirði og viðhaldsþörf sveitarfélagavega.
Sökum gagnaþurrðar er mat á endurstofnvirði sveitarfélagavega háð töluverðri óvissu. Samkvæmt Loftmyndum ehf. eru vegir í umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um 12.800 km, þar af 2.250 km með bundnu slitlagi og 10.500 km með malarslitlagi. Gera má ráð fyrir að mikill meirihluti vega með bundnu slitlagi sé í umsjón sveitarfélaga. Áætlað endurstofnvirði sveitarfélagavega er hér metið um 100–150 milljarðar króna, háð nokkurri óvissu. Malarvegir hafa hér hverfandi endurstofnvirði og eru ekki teknir með.
Samkvæmt gögnum um ástand sveitarfélagavega er líklegt að ástandið sé ívið verra en á þjóðvegum. Viðhaldsþörfin er hér metin um 40–60 milljarðar króna vegna endurnýjunar bundins slitlags, styrkinga og endurbóta.
FRAMTÍÐARHORFUR
Gult
Fjárþörf vegna reglubundins viðhalds bundinna slitlaga er áætluð um 2,2–3,4 milljarðar króna á ári. Þá bætast við að meðaltali um 100 km vega á hverju ári sem þarfnast styrkinga og endurbóta og er áætluð fjárþörf vegna slíks 3 milljarðar króna. Miðað er við að árleg fjárþörf vegna viðhalds brúa sé 2% af endurstofnvirði eða um 1,8 milljarðar króna. Ekki var unnt að meta viðhaldsþörf jarðganga á þessu stigi. Samtals er fjárþörf vegna reglubundins viðhalds því metin 7–8 milljarðar króna á ári. Á árunum 2017-2027 má því áætla að heildarkostnaður vegna reglubundins viðhalds verði 70–80 milljarðar króna, með fyrirvara um óvissu. Þessu til viðbótar er fjárþörf vegna uppsafnaðs viðhalds um 70 milljarðar króna eins og áður kom fram, alls 140–150 milljarðar króna.
Samkvæmt samgönguáætlun 2015-2026 er áformað að verja um 86 milljörðum króna til viðhalds á tímabilinu þannig að eingöngu er verið að mæta litlum hluta af uppsafnaðri þörf þegar fjármunum hefur verið varið í reglubundið viðhald. Í ljósi þessa eru framtíðarhorfur metnar stöðugar.
Sveitarfélagavegir. Minna er um gögn fyrir sveitarfélagavegi og erfitt að fjölyrða um framtíðarhorfur sveitarfélagavega og hvort framtíðarsamþykktir komi til móts við þörfina. Þau gögn sem bárust benda þó til að verið sé að efna til átaks í gatnakerfinu á næstu árum, m.a. innan Reykjavíkur en þar er áætlað að verja meir en 8 milljörðum króna til endurnýjunar og viðgerða fram til ársins 2021. Líklegt er því að horfur séu stöðugar í tilfelli sveitarfélagavega einnig en mikil óvissa er um það mat. Þá ber að athuga að áherslur sveitarfélaga eru um margt frábrugðnar áherslum ríkisins en áskoranir þéttbýlis hafa leitt til þess að meiri áhersla hefur verið lögð á að auka hlutdeild almenningssamgangna og virkra samgangna í ferðamátavali í stað þess að auka veg einkabílsins eingöngu.
HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?
Að koma á breytingum er flókið verk og krefjandi. Æskilegt væri að:
- Leggja meiri áherslu á framgöngu samgönguáætlunar og samþykkis hennar á Alþingi en oft líður langur tími frá hugmynd til opnunar mannvirkja. Ástæðan er bæði pólitísks, fjárhagslegs og tæknilegs eðlis (tímafrek skipulagning, lág framleiðni í byggingu, o.s.frv.). Áhersla á bætur á þessum sviðum gæti lækkað kostnaðinn við vegaframkvæmdir og fært ábata af vegaframkvæmdum í skaut þjóðarinnar fyrr en ella.
- Skoða frekar kosti einkaframtaks við framkvæmd og/eða rekstur umferðarmannvirkja. Leggja ætti áherslu á stórar nýframkvæmdir í því efni þar sem greiðsluvilji fyrir vegstyttingu er í samræmi við endurgreiðslur til einkaaðila að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu.
- Leggja frekari áherslu á að bæta gæði menntunar er lýtur að samgönguverkfræði og samgönguhagfræði með það fyrir augum að styrkja grundvöll ákvarðanatöku innan samgöngustofnana og sveitarfélaga.
- Skilgreina frekar mikilvægustu samgönguæðar þjóðarinnar og gera aðgerðaráætlun þar að lútandi. Í Danmörku er t.d. talað um svokallað „strategisk vejnet“ og vegakerfið litakóðað með einföldum hætti til að tilgreina mikilvægi samgönguæða, meðal annars m.t.t. umferðarþunga og afkasta.
- Leggja áherslu á nýstárlegar aðferðir í umferðarstjórnun, t.d. ljósastýringu, fleytitíð, deilihagkerfi, stafræn hraðamerki o.fl.
- Stórbæta öflun og vistun upplýsinga þegar kemur að hagtölum samgangna. Þar er átt við upplýsingaöflun um ferðavenjur í þéttbýli og dreifbýli (tilgangur ferðar, uppruni, áfangastaður, rannsóknir ofl.), tímavirði Íslendinga, greiningu aksturskostnaðar fyrir mismunandi gerðir farartækja, o.m.fl.
RÁÐLEGGINGAR
Áskoranir framtíðar eru margvíslegar og viðfangsefnið flókið. Æskilegt væri að:
- Koma á aukinni samvinnu milli sveitarfélaga og Vegagerðarinnar og framkvæma kerfisbundið mat á ástandi sveitarfélagavega á landinu öllu, viðhaldsþörf, o.s.frv. Gott væri að sömu aðferðum sé beitt á sveitarfélagavegi og þjóðvegi og vegum sé skipt upp í flokka eftir hlutverki og mikilvægi. Marka ætti samgönguáætlanir fyrir sveitarfélög til langs tíma þar sem tekið er mið af þörfum til hliðsjónar við fjárhagsstyrk.
- Forgangsraða fjárfestingum með kostnaðar- og/eða ábatagreiningu til að kanna hvort ráðstöfun skattfjár standi undir samfélagslegri ávöxtunarkröfu. Samfélagsleg ávöxtunarkrafa markast af ábata sem hlytist af veitingu fjár til annarra verkefna eða samneyslu. Greiningin yrði á forræði samgöngustofnana sem myndu stilla upp faglegri forgangsröðun sem vegin er á móti pólitískri forgangsröðun. Til að gæta að jafnræði milli landsbyggðar og þéttbýlis yrði að kanna hvaða flöskuhálsar og vegkaflar hafa svæðisbundið mikilvægi fyrir framþróun landsbyggðar, umferðaröryggi, o.fl. og framkvæma ítarlega þarfagreiningu.
- Efla gæðastjórnun og leggja áherslu á menntun og ráðningu öflugra fagmanna innan stofnana og huga að framleiðniaukningu með sameiningu stofnana, aukinni sérhæfingu og framfylgd faglegra krafna. Huga að jafnræði í fjármögnun og gjaldtöku milli mismunandi stjórnsýslustiga. Skipting tekna milli sveitarfélaga og hins opinbera þarf þá að vera sanngjörn með tilliti til þjónustuþyngdar.
- Halda umferðaraukningu í skefjum á höfuðborgarsvæðinu með breyttum ferðavenjum; eflingu almenningssamgangna og virkra samgangna. Ef ekki er búið í haginn og gripið til aðgerða tímanlega er líklegt að kostnaði sé velt margfalt inn í framtíðina. Mikilvægt er að horfa til reynslu annarra landa og borga af samgönguáskorunum í þéttbýli, beita hagrænum hvötum til að minnka bílaumferð og bæta samkeppnishæfni og ímynd annarra samgangna á við einkabílinn. Sveitarfélög landsins ættu þá að setja sér skýr markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og eiga í ríkri samvinnu.
RÝNI
Greiningin gefur góða yfirsýn á ástand vega og brúa í landinu. Einkunn 2 er raunhæft mat en um leið er sláandi að sjá hve mikið af vegamannvirkjum eru komin á tíma og að ekki hefur tekist að sinna viðhaldi og endurnýjun nægilega. Ef samgöngur í samfélaginu eiga að virka og standa undir kröfum um öryggi þarf aukið fjármagn í vegakerfið og einnig þarf að gera ráðstafanir til að viðhalda þekkingu og menntun á þessu sviði. Vegakerfi landsins er stórt miðað við íbúafjölda, íbúabyggð og áfangastaðir eru mjög dreifðir og notkun fjölbreytt eftir tegund byggðar. Umferðarmagn hefur víðast hvar farið fram úr spám með aukningu í ferðamannaiðnaði. Í greiningunni eru góðar ábendingar um hvernig bæta má úr ástandinu. Mikilvægt er að forgangsraða verkum eftir öryggi og umferðarmagni.
Aldís Ingimarsdóttir, aðjúnkt, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
HEIMILDIR
- Samgönguáætlun 2015–2026.
- Viðhaldsþörf 2015 – Vegagerðin.
- Endurstofnvirði 2016 – Vegagerðin.
- Gatnakerfi Loftmynda 2017.
- Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015–2040 (2015).
- Höfuðborgarsvæðið 2040 – Mat á samgöngusviðsmyndum (2013).