SI bíða eftir svörum frá Íbúðalánasjóði
Samtökin sendu í sumar bréf til Íbúðalánasjóðs þar sem þau óskuðu eftir endurskoðun á reglum um bankaábyrgð verktaka í byggingariðnaði. Erindinu hefur ekki verið svarað.
Reglur Íbúðalánasjóðs um ábyrgðir og tryggingar verktaka voru hertar í febrúar á síðasta ári og í versnandi árferði hefur farið að bera á mikilli óánægju með þær. Verktakar sem ætla að ráðast í nýbyggingar þurfa að leggja fram bankaábyrgð ef þeir ætla að fá fokheldislán Íbúðalánasjóðs. Þá hafa bankarnir hert útlánareglur sem torveldar verktökum að fá bankaábyrgð eða aðra lánafyrirgreiðslu. Auk þess sem aukinn kostnaður er samfara því að krefjast ábyrgðar frá bönkunum takmarkar krafa um tryggingar svigrúm verktaka til annarar fyrirgreiðslu.
SI sendu Íbúðalánasjóði erindi í sumar þar sem óskað var eftir endurskoðun á þessum reglunum. Samtökin telja nóg sé að taka veð í sjálfri eigninni. Þá segja SI það mikið hagsmunamál að hámarkslán verði hækkuð og horfið verði frá því að draga frá lán sem hvíla á veðréttum á undan Íbúðalánasjóði heldur verði viðmiðið 80% af kaupverði óháð áhvílandi veðskuldum á undan.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag, 18. september 2009.