Fréttasafn



30. apr. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Aðildarfyrirtæki SI í einu stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi

Aðildarfyrirtæki SI, Blær - Íslenska vetnisfélagið, BM Vallá, Colas, Terra og MS, taka þátt í einu stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi en um er að ræða kaup á vetnisknúnum MAN hTGX vöruflutningabílum. Í fréttatilkynningu á vefnum newenergy.is kemur fram að um sé að ræða dráttarbíla af stærstu gerð, 44/49 tonn. Skrifað var undir viljayfirlýsingu um kaup á bifreiðunum í Hellisheiðarvirkjun þar sem vetnisframleiðsla Orku náttúrunnar fer fram. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir vorið 2025. 

Orka náttúrunnar framleiðir á Hellisheiði vetni til að knýja bílana og Blær - Íslenska vetnisfélagið mun dreifa því. Með þessu sameinast framleiðandi og innflytjandi bílanna, viðskiptavinir og fyrirtækin sem framleiða og dreifa orkugjafanum um eitt stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi. Kraftur er umboðsaðili MAN á Íslandi, en fyrirtækin sem kaupa fyrstu bílana eru BM Vallá, Colas, MS, Samskip og Terra. Í tengslum við kaupin á bílunum byggir Blær nýja vetnisstöð sem veitt getur bæði vörubílum og fólksbílum þjónustu. 

Í tilkynningunni kemur fram að unnið hafi verið að samningum um innflutning bílanna og viljayfirlýsingu um kaup á þeim undir verkstjórn Íslenskrar NýOrku í um 18 mánuði, en Íslensk NýOrka var stofnuð 1999 í tengslum við viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um að stefna að nýtingu endurnýjanlegra orkubera til samgangna.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku: „Hér er um að ræða eitt stærsta einstaka orkuskiptaverkefnið í sögu þjóðarinnar. Eldsneytisnotkun 20 dráttarbíla jafnast á við ríflega þúsund fólksbíla og áætla má árlegan sparnað af bruna 700 þúsund lítra af dísilolíu. Með innflutningi bílanna og kaupum á þeim er stórt skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á Íslandi. Næstu skref eru að tryggja bæði framboð og samkeppnishæft verð á vetni til nota í samgöngum þannig að full orkuskipti geti átt sér stað.“

Vetni-155450

Vetni-160817

Vetni-160343