Fréttasafn



16. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Býst við vaxtalækkun

Rætt er við Ingólf Bendir, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, í laugardags-hádegisfréttum RÚV þar sem hann segist búast við vaxtalækkun. „Já, ég á von á vaxtalækkun, full þörf á því. Seðlabankinn er búinn að vera hljóður í svolítinn tíma, það er gott svigrúm í peningamálum reyndar líkt og í opinberum fjármálum til þess að taka á og mæta þessari niðursveiflu með þá vaxtalækkun og síðan þá útgjaldaaukningu á sviði ríkisfjármála. Og við eigum bara að nýta þessi tæki af fullum þunga til þess að hjálpa okkur í gegnum þetta, bæði fyrirtækjum og heimilum.“

Hann segir spár hjálpleg tæki til að meta stöðuna og gera sér grein fyrir því hvað eigi að gera en Landsbanki og Íslandsbanki spá vaxtalækkun í vikunni og að vextir í árslok verði komnir í hálft prósent eða 0,75%. „En síðan er það líka bara það sem er að gerast hérna í innlendri eftirspurn, bæði þá neyslu og fjárfestingu sem að hefur dregist verulega saman vegna COVID, reyndar var kominn samdráttur fyrir það en búið að bæta verulega svörtu ofan á það.“ 

Spár gagnleg tæki

Í fréttinni kemur fram að bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafi gefið fyrir helgi út spár um efnahagshorfurnar þar sem talað er um efnahagsáfall aldarinnar. Landsbankinn geri ráð fyrir tæplega 9% samdrætti á árinu en Íslandsbanki rúmlega 9%. Ingólfur segir spár bankanna um efnahagshorfur gagnleg tæki til að takast á við efnahagssamdráttinn. Hann segir það sé alveg munur á þessum spám samt. „Þó að þessar tvær frá bönkunum sem þú nefnir séu mjög keimlíkar. Þá sjáum við eins og S&P eru að spá 7,5% samdrætti og síðan eru SA og Viðskiptaráð með rétt um 13% og þessi munur endurspeglar þá miklu óvissu sem er til staðar í svona spágerð við þessar aðstæður. Við vitum ekkert nákvæmnlega hvernig árið spilast. Kannski ekki síst hvernig gengur að drífa hagvöxtinn þegar við lítum fram á seinni helming ársins og næsta ár.“ Hann segir að mikill samdráttur sé í gjaldeyristekjum, einkum vegna ferðaþjónustunnar, og mikil óvissa sé með viðspyrnu á árinu.

RÚV, 16. maí 2020.