Fréttasafn



24. jan. 2017 Almennar fréttir

Fjórða iðnbyltingin kallar á breytingar á mörgum sviðum

Í tilefni af Degi rafmagnsins birti Morgunblaðið viðtal við Ragnheiði H. Magnúsdóttur, formann Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, um fjórðu iðnbyltinguna sem er framundan með yfirskriftinni „Vélmennavæðing og störfin verða sjálfvirk“. Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður, skrifar:

Flest af þeim tækjum og búnaði sem gera fjórðu iðnbyltinguna að veruleika eru þegar tiltæk en sá galdur og kraftur sem býr að baki byltingunni er að nettengja hluti saman og nota gervigreind, sýndarveruleika og fleira slíkt til að búa til nýjar vörur og þjónustu. „Það er mikilvægt að taka þátt í þróuninni í stað þess að þess að elta. Þjóðir sem hafa ekki fylgt fyrri iðnbyltingum hafa eins og dæmin sanna átt erfitt með að ná þeim sem voru með frá upphafi,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, vélaverkfræðingur og formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja. Hún fjallar um þetta efni í dag á ráðstefnu í tengslum við Dag rafmagnsins. 

Vélar verða skyni gæddar 

Tímarnir breytast og mennirnir með, segir máltækið. Á síðari hluta 19. aldar hófst í Bretlandi vélvæðing sem átti eftir að ná til heimsins alls og er kölluð 1. iðnbyltingin. Gufuvélar og síðar önnur tæki komu í stað handafls og hesta og það lagði gruninn að aukinni framleiðni sem krafðist vinnuafls. Á Vesturlöndum leiddi þetta til þess að fólk flutti úr sveitum svo iðnaðarborgir stórra markaða mynduðust. Með tilkomu stáls sem smíðaefnis, auk nýrra uppgötvana og lausna í fjarskiptum, sköpuðust forsendur fyrir áframhaldandi tækniþróun á 20. öld. Þannig er sagt að fjöldaframleiðsla sé 2. iðnbyltingin, sjálfvirknivæðing í gegnum netið sé hin þriðja og af henni spretti fjórða byltingin sem fyrr er lýst. „Vélmennavæðingin er í fullum gangi,“ segir Ragnheiður. „Dæmi um þetta eru drónar, sjálfkeyrandi bílar og vélmenni sem til dæmis hjálpa gömlu fólki fram úr rúminu sínu. Störf okkar eru að verða sjálfvirknivædd. Vélar verða skyni gæddar og geta framkvæmt hlutina eins vel og manneskja. Sumir segja að vélar muni til dæmis taka við störfum lögfræðinga að stórum hluta og mörg önnur störf eru í hættu. Þá er sýndarveruleiki útfærður með ýmsu móti, til dæmis hjá tölvuleikjafyrirtækjunum íslensku eins og CCP. Með nýrri sýndartækni má fara aftur í tíma, ofan í sjó, inn í frumur og svo framvegis. Mörg viðfangsefni eru leyst á alveg nýjan hátt, til dæmis í læknavísindum, arkitektúr, markaðsmálum og svo framvegis.“ 

Láta listir og tækni mætast 

Eini raunhæfi undirbúningurinn í þeirri miklu breytingu sem nú er að verða á samfélaginu með tilstilli tækninnar, er að skólar leggi rækt við sköpunargáfu krakka og gefi þeim tækifæri þar, segir Ragnheiður. „Galdurinn felst í því að láta listir og tækni mætast. Sköpunargáfa er mikilvægasti eiginleiki fólks sem er að koma nýtt inn á vinnumarkaðinn, samkvæmt nýlegri könnun sem gerð var meðal stjórnenda fyrirtækja um allan heim. Er þar horft til þeirra breytinga sem virðast framundan.“ Þótt tæknibylting sé framundan er mikilvægt, að sögn Ragnheiðar, að hafa í huga að mest af þeim búnaði sem hana leiðir er þegar tiltækt. Skynvæðing samtengdra tækja er það sem málið snýst um. „Þetta getur hljómað eins og vísindaskáldsaga en er það samt ekki, ef við horfum til þess hvernig netið og farsímar hafa gjörbreytt lífi okkar á örfáum árum. Tækifærin eru til staðar en auðvitað geta skapast vandamál ef við fylgjum ekki þróun. Í opinbera kerfinu er sjálfvirkni í afgreiðslu erinda almennings líka skammt á veg komin. Þá þurfa tæknifyrirtæki að geta hagnýtt sér rannsóknir í háskólum landsins því af þeim spretta oft ný fyrirtæki og verðmætasköpun.“

Morgunblaðið, 23. janúar 2017.