Fréttasafn



18. jún. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Mikill vöxtur í íbúðafjárfestingu

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er greint frá því að íbúðafjárfesting sé að taka við sér og rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir að í fjölda íbúða sé fjölgunin mest í Reykjavík en að í könnun sem  samtökin gerðu fyrir skömmu komi fram að prósentulega sé vöxturinn mestur í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. „Hann er svolítið að færast út í jaðarinn og það kann að vera vegna þess að framboð á íbúðum hefur verið takmarkað hér og hefur verið að aukast þar og verðþróunin hefur verið með þeim hætti að munurinn á verði í 101 og á jaðarsvæðum hefur verið mikill.“  Ingólfur segist jafnframt telja að vel flestar þessara íbúða séu ætlaðar fyrir almennan markað. „Langmest er þetta fjölbýli og afskaplega lítið byggt af einbýli.“  

Í fréttinni kemur fram að tölur Hagstofunnar sýna að fjárfesting jókst í hagkerfinu um 11,6 prósent á fyrsta fjórðungi þessa árs frá sama ársfjórðungi í fyrra. Vöxtinn má að mestu rekja til íbúðafjárfestinga sem jukust um 38 prósent sem sé mikill vöxtur. Á sama tíma jókst fjárfesting atvinnuvega um 7,1 prósent og fjárfesting hins opinbera um einungis 2,2 prósent.

Fréttablaðið / Frettabladid.isVísir, 18. júní 2018.

Frettabladid-18-06-2018