Fréttasafn



24. okt. 2016 Almennar fréttir

Munu börnin þekkja kynbundinn launamun?


Samtök atvinnulífsisn vekja athygli á því í auglýsingum í dag að fyrirtæki sem mismuna fólki í launum eftir kynferði brjóta lög, sóa verðmætum og standa sig verr í samkeppni á markaði. Í auglýsingunum segir að mikilvægt sé að stjórnendur haldi vöku sinni og mismuni ekki starfsfólki af gáleysi heldur nýti krafta allra jafnt. Þar segir jafnframt að kynbundinn launamunur eigi sér margar ástæður og verði ekki upprættur með lögum eða reglugerðum. Viðhorfsbreytinga sé þörf á fjölmörgum sviðum. Karlar og konur þurfi að bera jafna ábyrgð á heimilinu. Foreldrar, skólakerfið og samfélagið allt þurfi að stuðla að breytingum á náms- og starfsvali ungmenna til að brjóta upp kynskiptan íslenskan vinnumarkað. Stjórnendur og starfsfólk geti lagt sitt af mörkum til þess að börnin okkar þekki ekki hugtakið kynbundinn launamun þegar þau koma út á vinnumarkaðinn.

Á vefsíðu SA segir að samtökin hvetji alla sem hlut eiga að máli til að vinna saman að því að vinna gegn kynbundnum launamun. Samtök iðnaðarins taka undir þessa hvatningu.