Fréttasafn



  • vinnumálastofnun

23. feb. 2010

Réttur einyrkja til atvinnuleysisbóta

Einyrkjar þurfa ekki að loka VSK númeri til að fá atvinnuleysisbætur, heldur nægir að tilkynna launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra að reksturinn hafi verið stöðvaður. Í fjölmiðum hefur að undanförnu verið ranglega haldið fram að einyrkjar verði að leggja inn VSK númerum sínum, en það er ekki rétt segir Vinnumálastofnun.

Á heimasíðu Vinnumálastofnunar segir meðal annars:

Réttur einyrkja til atvinnuleysisbóta og hlutabóta
Í lögum um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist án atvinnu hafi hann stöðvað rekstur sinn og kunni því að eiga rétt á atvinnuleysisbótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Rétt er að taka fram að Atvinnuleysistryggingasjóður gerir ekki kröfu um að viðkomandi hafi lokað virðisaukaskattsnúmeri sínu til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum, heldur nægir að hann tilkynni til launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra að reksturinn hafi verið stöðvaður.

Einyrkjar geta átt rétt á hlutabótum í þrjá mánuði
Sjálfstætt starfandi einstaklingur getur átt rétt á atvinnuleysisbótum á móti skertu starfshlutfalli í allt að þrjá mánuði ef hann sýnir fram á verulegan samdrátt í rekstri. Í þessu felst að viðkomandi getur tekið að sér tilfallandi verkefni en haldið rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Heimild til hlutabóta byggist á bráðabirgðaákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar og gildir til 30. júní næstkomandi. Réttur einyrkja til hlutabóta sem fengu slíkar bætur greiddar fyrir áramót rennur út 28. febrúar.
Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur var breytt um síðustu áramót þannig að sett var þriggja mánaða hámark á greiðslu hlutabóta til einyrkja. Ástæða breytingarinnar var sú hve flókið var í framkvæmd að meta samdrátt í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklinga til lengri tíma. Einnig var sú hætta talin fyrir hendi að hlutabætur færu að nýtast eins og rekstrarstyrkur sem er andstætt tilgangi atvinnuleysisbóta. Litið er svo á að þrír mánuðir séu hæfilegur umþóttunartími fyrir einyrkja þegar þeir þurfa að bregðast við tímabundnum samdrætti í rekstri eða endurmeta rekstrarforsendur og jafnvel taka ákvörðun um að hætta rekstrinum.

http://www.vinnumalastofnun.is/atvinnuleysistryggingasjodur/frettir/nr/1634/