Fréttasafn



  • Jón Steindór Valdimarsson

31. maí 2010

Þurfum fleira fólk í tæknigreinar

Það verður að stilla saman strengi til þess að fá fleiri til þess að leggja stund á tækni- og raungreinar í skólum landsins. Framkvæmdastjóri SI skorar á háskólana að framlengja umsóknarfresti.

„Nauðsynlegt að framlengja fresti“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Ég held að ungt fólk átti sig ekki nægilega vel á því hve mikil þörf er á fólki með hvers konar verk- og tæknimenntun, ekki síst á hugbúnaðar-, raf- og véltækni af ýmsu tagi. Vaxtargreinar okkar þurfa á svona fólki að halda. Fáist það ekki geta fyrirtækin ekki vaxið hér á landi og það má ekki gerast“ segir Jón Steindór.

„Það er skylda okkar allra að gera allt sem við getum til þess að fá sem flesta til þess að mennta sig á þessum sviðum. Það er skylda jafnt stjórnvalda, skóla og atvinnulífsins. Við þurfum að gera betur grein fyrir hver framtíðin er og hvar tækifærin liggja. Við eigum fullt af fyrirtækjum sem við gætum kallað tækni- eða hugverkafyrirtæki sem selja afurðir sínar fyrst og fremst á erlenda markaði. Þar er að finna spennandi starfsvettvang og þörfin vex fyrir starfsfólk með rétta menntun og hæfileika. Samtök iðnaðarins hafa lengi hvatt ungt fólk til þess að mennta sig í þágu iðnaðarins í víðum skilningi.“

Við eigum góða skóla bæði á framhalds- og háskólastigi sem bjóða fyrsta flokks nám og aðstöðu. Við þurfum fleira fólk í greinarnar sem ég nefndi áðan. Ég skora á Háskólann í Reykjavík, sem er stærsti skóli landsins á sviði verk- og tæknimenntunar á háskólastigi, sem og aðra háskóla með kennslu á þessu sviðum, að framlengja umsóknarfrest um skólavist fram í miðjan júní til þess að gefa sem flestum kost á að vega og meta kosti þess að setjast þar á skólabekk og leggja stund á verk- og tæknigreinar. Atvinnulífið þarfnast þess og unga fólkið þarfnast þess“ segir Jón Steindór.