Fréttasafn



  • Logo_Rannis

16. júl. 2010

Endurgreiðsla þróunarkostnaðar og skattafsláttur til fjárfesta vegna útgáfu nýrra hlutabréfa

 

Fyrirtæki sem hyggjast nýta heimildir á árinu 2010 þurfa að sækja um staðfestingu hjá Rannís fyrir 1. september n.k.

Í desember 2009 samþykkti Alþingi tvenn lög (lög nr. 152/2009, og nr. 137/2009), með það að markmiði að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja, efla nýsköpun, rannsóknir og þróunarstarf.  Samkvæmt lögunum verður viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum annars vegar veittur réttur til skattfrádráttar vegna kostnaðar við rannsóknar-og þróunarstarf í nýsköpunarverkefnum.  Hins vegar er hvatt til fjárfestinga í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum gegn skattafslætti til fjárfesta.

Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum geta sótt um og fengið staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki, að uppfylltum skilyrðum laganna.  Lykilatriði í skilgreiningu laganna á „nýsköpunarfyrirtæki“ er að geta sýnt fram á að á tveimur af síðustu þremur árum hafi rannsóknar-og þróunarkostnaður numið meira en 1,5% af rekstrartekjum, eða -kostnaði, eftir því hvor fjárhæðin er hærri, eða að varið hafi verið a.m.k. 40 milljónum króna til rannsókna og þróunarstarfs á ári undanfarin tvö ár. 

Lögaðili, sem óskar eftir staðfestingu á að teljast nýsköpunarfyrirtæki og njóta stuðnings sem lögin kveða á um, skal senda Rannís umsókn þess efnis. 

Fyrirtæki sem hyggjast nýta heimildir á árinu 2010 þurfa að sækja um staðfestingu hjá Rannís fyrir 1. september n.k.  Þar sem sumarfrí eru framundan og tíminn í ágúst fljótur að líða hvetja Samtök iðnaðarins félagsmenn sína sem hyggjast nýta sér heimildir laganna að hefjast handa strax.  Heimildin er afturvirk frá og með 1. janúar 2010 að telja.

Í umsókn er um tvo kosti að velja. Annars vegar staðfesting sem leiðir til skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar samkvæmt 5. grein laganna, og hins vegar heimild vegna hlutafjáraukningar sem veitir heimild til skattafsláttar fjárfesta samkvæmt 6. grein laganna.  Sami umsækjandi getur sótt um hvort tveggja.  Hér eftir verður fjallað um skattfrádrátt skv. 5. grein sem Leið 1 og skattafslátt skv. 6. grein sem Leið 2.

 

Skattfrádráttur (skv. Leið 1) miðast við hvert verkefni og er stofn til útreiknings að hámarki 50 mkr. fyrir verkefni (75 mkr. með samstarfi við háskóla, rannsóknastofnanir eða aðra viðurkennda aðila) Skattfrádráttur nemur 15% af stofni til útreiknings, þ.e. að hámarki 7,5 mkr. miðað við hámarksheimild. Skattfrádráttur (endurgreiðsla) er óháður því hvort fyrirtækið greiðir skatt eða ekki.  Hvert fyrirtæki getur verið með fleiri en eitt verkefni á sama tíma, en sækja verður um hvert verkefni sérstaklega.

Skattafsláttur til fjárfesta vegna hlutabréfakaupa (skv. Leið 2) miðast við fjárfestingu á hverju ári að verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra í sams konar félögum, að hámarki 300.000 kr. hjá einstaklingi og 600.000 kr. hjá hjónum.  Samskonar heimild er veitt hlutafélaga og einkahlutafélaga að sem miðar að fjárfestingu að hámarki 15.000.000 kr. á hverju ári.

Rannís vinnur að mótun umsókna- og verklagsferla, m.a. í form handbókar með leiðbeiningum fyrir umsækjendur, ásamt því að draga fram nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd laganna.  Allar nauðsynlegar upplýsingar eru aðgengilegar á vef Rannís, http://www.rannis.is/ (skattaívilnun).