Fréttasafn



  • Borgartún 35

4. jan. 2012

Ályktun frá stjórn SI

Stjórn Samtaka iðnaðarins lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á skipan iðnaðar- og auðlindamála í stjórnarráði Íslands. Rík ástæða er til að endurskoða verklag og verkaskiptingu hjá hinu opinbera, en hins vegar telja samtökin afar varhugavert að deila verkefnum núverandi iðnaðarráðuneytis milli umhverfisráðuneytis annars vegar og óstofnaðs atvinnuvegaráðuneytis hins vegar. Á fyrri hluta þess árs eiga málefni íslensks iðnaðar þar að auki að verða að hlutastarfi einhvers núverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar. Sú tímabundna skipan er sögð eiga að gilda þar til fyrrgreindar kerfisbreytingar hafa átt sér stað. Stjórn SI lýsir yfir vonbrigðum með að málefni iðnaðar séu þannig afgangsstærð í pólitískum viðskiptum meðan breytingar á stjórnarráðinu eru útfærðar. Íslenskur iðnaður skapar tæpan helming útflutnings þjóðarinnar – og yfir tvo þriðju gjaldeyristekna hennar þegar ferðaþjónusta er talin með. Mikilvægt er að ríkt samráð verði haft við svo stórar greinar atvinnulífsins þegar leggja á niður ráðuneyti þeirra og haga stjórnsýslu þeirra með breyttum hætti.
 
Um þessar mundir er Íslendingum brýn nauðsyn að tækifæri þeirra til lands og sjávar séu nýtt markvisst og sjálfbært, með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Með því að skipta verkefnum á sviði iðnaðarmála upp með fyrrgreindum og á köflum óljósum hætti telur stjórn SI að rofin verði tengsl milli atvinnulífs annars vegar og rannsókna, nýtingar, verndunar og þróunar hins vegar. Samtökin telja að Íslendingum sé þvert á móti nauðsynlegt að halda sterkum böndum milli atvinnu, þekkingar og auðlinda. Þannig eru meiri líkur en ella á að sátt skapist um skynsamlega og sjálfbæra framvindu atvinnulífs á Íslandi.
 
Þekkingarstofnanir á borð við Orkustofnun, ÍSOR, Nýsköpunarmiðstöð og Matís byggjast til að mynda á nánu samstarfi við atvinnulíf á viðkomandi sviðum. Stofnanirnar eiga þannig sterka bakhjarla sem tryggja þeim faglegt sjálfstæði innan stjórnsýslunnar í rannsóknum sínum. Með þeirri breyttu hlutverkaskipan, sem stefnt er að, verður dregið úr tengslum þekkingaröflunar og verðmætasköpunar. Um leið minnkar gagnkvæm upplýsingamiðlun sem er lífæð framþróunar að viðkomandi fagsviðum.
 
Sem dæmi má nefna að verkefnið um jarðvarmaklasann byggist á að lykilaðilar í þekkingarsköpun á sviði orku- og umhverfisnýtingar tilheyri atvinnu- og verðmætasköpun í stjórnsýslunni en hafi verndun ekki að aðalmarkmiði. Svipað má segja um íslenskan matvælaiðnað. Matís er þekkingar- og rannsóknarfyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði og líftækni og sinnir matvælaöryggi. Matís veitir ráðgjöf varðandi vöruþróun, ferla og útflutning íslenskra fyrirtækja en aflar um leið ríkrar þekkingar innan fyrirtækjanna sjálfra. Óráð væri að færa slíka stofnun frá matvælaframleiðslunni í landinu. Þá má nefna rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Vinnubrögð við gerð hennar nutu trausts meðan hinir faglegu verkþættir voru unnir, einmitt vegna þess að stjórnsýsla atvinnulífs og verndunar inntu þá saman af hendi. Með fyrirhuguðum breytingum yrðu fulltrúar verðmæta- og atvinnusköpunar hvorki þátttakendur í framkvæmd áætlunarinnar né annarra af sama toga.
 
Gagnkvæm tengsl milli þekkingar og atvinnu eru verðmæt og þau verður að vernda. Íslenskir sérfræðingar á ýmsum sérhæfðum sviðum eru margir meðal þeirra fremstu í heiminum, einmitt vegna náinna tengsla rannsókna, nýtingar og nýsköpunar. Því er fyrirhuguð uppskipting í stjórnsýslunni afar varhugaverð.