Fréttasafn



  • datamarket

2. okt. 2012

DataMarket kynnti nýtt gagnatorg í Hvíta húsinu

Upplýsingatæknifyrirtækið DataMarket kynnti í gær nýjustu afurð sína DataMarket Energy á sérstökum kynningardegi í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Gengur dagurinn undir nafninu Energy Datapalooza og er ætlaður frumkvöðlafyrirtækjum til að kynna vörur og þjónustu sem tengjast gagnavinnslu í kringum orkuiðnaðinn í Bandaríkjunum. Það er vísinda- og tæknisvið Hvíta hússins sem stendur fyrir uppákomunni ásamt Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Á nýja orku-gagnatorginu eru um 10 þúsund gagnasett með rúmlega 2 milljónum breytna fyrir tíma frá 13 upplýsingaveitum. Meðal þeirra eru gögn frá Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum, orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna auk fjölda stofnana tengdra orkumálum.

Framkvæmdastjóri DataMarket, Hjálmar Gíslason, kynnti hugbúnaðinn. Hægt er að nálgast kynninguna á heimasíðu DataMarket Energy.

DataMarket var stofnað af Hjálmari Gíslasyni árið 2008, en fyrirtækið hefur þróað og rekur gríðarmikið safn tölulegra gagna frá tugum alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana. Auk þess veitir fyrirtækið bæði gagnaveitum og notendum gagna ýmiskonar þjónustu byggða á þessum sömu lausnum.