Fréttasafn



21. ágú. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Tölvuleikjagerð á háskólastigi í boði hjá Keili

Í fyrsta skipti í sumar bauð Keilir upp á námsbraut í tölvuleikjagerð á háskólastigi í samstarfi við norska skólann Noroff - School of technology and digital media. Um er að ræða BSc gráðu sem tekin er á þremur árum í fjarnámi hjá Noroff og með staðlotum hjá Keili. En hjá Keili er unnið að undirbúningi fyrir nýja námsbraut í gerð tölvuleikja á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs fyrir nemendur á aldrinum 16-25 ára. Námið sem er í undirbúningi byggir á nánum tengslum við atvinnulífið og hafa Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi og Samtök iðnaðarins, sem og leiðandi fyrirtæki í greininni líkt og CCP, lýst stuðningi við námsbrautina. Þá hefur Keilir undirritað samstarfssamning við danska leikjagarðinn Game Park Danmark, en þar er meðal annars starfræktur eini menntaskólinn í Danmörku þar sem boðið er upp á leikjagerð bæði sem valgrein og aðaláhersla. Í skólanum er einnig boðið upp á nám á háskólastigi fyrir þá sem vilja í samstarf við háskólann í Árósum. 

Nánar um nám í tölvuleikjagerð á vef Keilis.

Á vef Vísis er viðtal við Arnbjörn Ólafsson, forstöðumann markaðs- og alþjóðamála hjá Keili.