160 fyrirtæki skrifa undir vinnustaðasáttmála
Á málstofu SI „Þú færð pottþétt starf – atvinnurekendur axla ábyrgð á vinnustaðarnámi“ á Menntadegi atvinnulífsins talaði Dr. Elsa Eiríksdóttir um niðurstöður nýrra rannsókna sem benda til að erfiðleikar við að komast í vinnustaðarnám fæla marga frá iðnnámi á sama tíma og skortur er á fólki í flestum greinum. Að sögn Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, menntastjóra SI, völdu aðeins 14% grunnskólanema starfsmenntun í framhaldsskóla sl. haust og hefur það hlutfall staðið í stað undanfarin ár þrátt fyrir að grunnskólanemum hafi fjölgað. Sérstaklega er mikill skortur á nemum í húsasmíði, einni stærstu iðngreininni.
Samtök iðnaðarins hafa því blásið til herferðar sem er beint að forráðamönnum barna og unglinga. Þar er lögð áhersla á að þeir sem fari í iðnnám fái pottþétt starf, þeir fari í vinnustaðanám hjá spennandi fyrirtæki og hljóti dýrmæta starfsreynslu og alþjóðlega viðurkennd réttindi auk þess sem iðnnám sé góður grunnur að fjölbreyttu framhaldsnámi. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur sagt að mikilvægt sé að kynna starfsnám snemma því unga fólkið tengist ekki atvinnugreinunum eins mikið og áður. Grunnskólanemendur þurfi að hafa val um nám sem þeir þekki.
Menntakerfið og atvinnulífið eru sammála um að auka þurfi starfsnám í öllum greinum og söfnuðu SI 160 fyrirtækjum á aðeins tveimur vikum sem ætla að taka nema á samning eða í vinnustaðanám. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, afhenti Jóni B. Stefánssyni, skólameistara Tækniskólans, formlegan sáttmála þess efnis að málstofunni lokinni.
Frétt um Menntadag atvinnulífsins
Frétt um Menntaverðlaun atvinnulífsins